Yngvi Freyr Óskarsson
Sérfræðingur - Farþegaþjónusta
PRM leiðbeinandi lhjá Isavia – annar tveggja á Íslandi. PRM er skammstöfun á „Passengers with Reduced Mobility“. Meginhlutverk starfsmanna PRM þjónustu á Keflavíkurflugvelli er að tryggja fötluðum og hreyfihömluðum farþegum þá aðstoð sem þeir þurfa við komu og brottför. PRM leiðbeinandi sér um að þjálfa starfsfólk sem sinnir PRM þjónustu og meðhöndlar gögn tengd PRM þjónustu. Einnig að upplýsa stjórnendur um umfang þjónustunnar ár hvert, hvort það sé aukning eða samdráttur á þjónustunni á milli ára.
Hvaða nám varð fyrir valinu hjá þér og hvers vegna?
Ég valdi viðskiptafræði í háskóla, fyrst og fremst af því að ég er góður að vinna með tölur og áhugasamur um stærðfræði og tölfræði. Í framhaldsskólanum valdi ég einnig viðskiptafög og þegar kom svo að því að velja mér fag í háskóla var ég ekki viss um hvaða braut ég vildi fara á fyrr en á síðustu stundu. Þá varð viðskiptafræðin aftur fyrir valinu, kannski af því að ég var ekki viss um neitt annað.
Vannstu eitthvað með náminu?
Ég hóf að vinna hjá Isavia með námi eftir fyrstu önnina í Háskóla. Ég vann í farþegaþjónustunni þessi þrjú ár sem námið varði. Til að byrja með var þetta lítil deild með aðeins sjö starfsmenn og starfssvið mitt sneri að gögnum, verkflæði og ferlum.
Hélstu áfram í námi að útskrift lokinni?
Nei en ég er að skoða það. Ég hef ekki ákveðið neitt enn en horfi til tölfræði eða hagfræði.
Hvar fékkstu hugmyndina að byrja að vinna á flugvellinum?
Ég var að leita að sumarstarfi og fékk ábendingu um að það væri gott að vinna hérna. Ég fór á heimasíðuna, sendi inn umsókn og var samstundis boðaður í viðtal. Ég var að leita að sumarstarfi en var strax boðið varanlegt starf í 53% hlutfalli. Ég hef verið hjá Isavia síðan eða í fjögur ár.
Hvernig hefur starfið þitt þróast hjá Isavia?
Ég byrjaði farþegaþjónustunni 2020. PRM var fljótlega bætt inn í deildina og 2021 fékk ég hlutverk vakstjóra og hópstjóra í sömu deild árið 2022. Síðan fór ég til Ítalíu þar sem ég fékk vottun sem PRM þjálfari. Ég vann í PRM þjónustunni fram í maí 2023 og fékk þá stöðu sem sérfræðingur í farþegaþjónustu samhliða þjálfun í PRM þjónustu. Ég hef mikinn metnað fyrir því að vinna mig upp og hef áhuga á stjórnun. Á meðan ég get haldið áfram að þróast í starfi hjá Isavia og upplifi ekki stöðnun þá er ég mjög sáttur að vinna hérna áfram.
Hvað myndirðu ráðleggja ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaðinum?
Reyndu að njóta þess sem þú gerir og gera allt vel. Það þarf oft bara smá vinnu og metnað til að opna margar dyr. Það er ekki eins flókið og margir halda að þroskast í starfi. Mínir styrkleikar eru skipulagsfærni, ég vinn vel undir pressu og er með greinandi hugsun þegar kemur að fólki og tölum.
Ninoslav Vujisic
Sérfræðingur rafmagnskerfa – Vélrænn búnaður
Meðhöndlun og greining rafmagnskerfa á Keflavíkurflugvelli.
Hvaða nám valdirðu þér og hvers vegna?
Aðalnámsgreinin mín var rafmagnsverkfræði. Ég lauk BS gráðu í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Chicago. Ég valdi námið af því að mig hafði alltaf langað til að vinna við iðnað og tækni. Ég var 16 ára þegar ég ákvað að stefna í þessa átt. Nikola Tesla, fyrirmyndin mín, hafði mikil áhrif á mig. Hann er faðir rafmagnsverkfræðinnar og ég lærði um hann í framhaldsskóla. Ég man enn augnablikið þegar ég ákvað að feta í hans spor og verða rafmagnsverkfræðingur.
Varstu virkur í atvinnulífinu á meðan þú varst í námi?
Ég vann mjög mikið, bæði við rafveitu- og orkuver. Þar öðlaðist ég mikilvæga reynslu í að takast á við erfiðar aðstæður. Einnig þjálfaði ég stráka og stelpur í körfubolta á Íslandi.
Fórstu í áframhaldandi nám eftir útskrift?
Já, ég gerði það. Ég útskrifaðist með MA í rafmagnsverkfræði frá KTH í Stokkhólmi. Það er alþjóðlegt nám sem fer fram að hluta til í Svíþjóð, Frakklandi og Bandaríkjunum. Viðfangsefnin voru hönnun raftæknibúnaðar, rafeindatækni, rafvélar, stýring rafkerfa, hönnun rafkerfa, orkumarkaðir og stjórnun orkukerfa. Síðan lauk ég MA gráðunni í rafmagnsverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Hvernig datt þér í hug að sækja um starf á flugvellinum?
Mig langaði að vinna hjá Isavia því ég vissi að það væri áskorun fyrir mig. Stjórnun flugvalla er með flóknari verkefnum í heimi og er mjög krefjandi fyrir alla verkfræðinga. Það er mjög gott og krefjandi að vinna hjá Isavia og ég myndi gjarna vilja læra miklu meira og vinna mig upp á mínu sérsviði. Ég hef metnað til að verða yfirverkfræðingur.
Hvernig hefur starfsþróun þín verið hjá Isavia?
Ég hef einungis unnið hérna í eitt ár en hef lært heilmikið. Ég hef þurft að læra mikið um lög og reglugerðir tengdar flugvöllum og er alltaf að læra meira um ábyrgð verkfræðinga hjá Isavia. Þótt ég sé enn í sama starfinu hefur það þróast frá því ég byrjaði. Þróunin hefur verið mjög jákvæð og góð og snýr að mestu að því að læra um flugvallarrekstur með góðum stuðningi samstarfsfélaganna. Í mínu tilfelli snýr starfsþróunin einnig að íslenskri tungu og menningu. Ég er frá Makedoníu og íslenska er ekki mitt fyrsta tungumál svo ég er að reyna að læra að tala það og skilja á meðan ég er að læra á starfið mitt. Það er því óhætt að segja að starfsþróunin gangi hönd í hönd við að ég verði betri að tala íslenskuna og kynnist betur íslenskri menningu. Svo þegar maður hugsar um starfsþróun, þá snýst hún ekki bara um að gera það sem maður á að gera heldur líka að vera þátttakandi á vinnustaðnum.
Hvaða ráð myndirðu gefa ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum?
Berjist fyrir því sem þið trúið á og aldrei gefast upp. Ég hef fengið stuðning frá foreldrum mínum við allt sem ég hef gert í mínu lífi. Þau hafa alltaf hvatt mig til að reyna að læra af þeim bestu. Samt sem áður vissi ég frá unga aldri að ég þyrfti að setja mína stefnu sjálfur. Ég ber sjálfur ábyrgð á því að skapa mér tækifæri og ég vinn hart að því sem ég trúi á. Verið opin fyrir þeim tækifærum sem lífið færir ykkur. Takist óhrædd á við áskoranir og verið djörf! Við getum öll gert eitthvað sem skiptir máli – spurningin er bara, hvað skiptir ykkur máli, á hvað trúið þið?
Yngvi Freyr Óskarsson
Sérfræðingur í farþegaþjónustu
Ninoslav Vujisic
Sérfræðingur rafmagnskerfa